miðvikudagur, 23. apríl 2014

Burtu með fordóma

Það var einhvern tímann um daginn sem ég sat og beið eftir strætó við Þjóðminjasafnið. Ásinn var rétt ókominn og ég sat inni í skýlinu og hélt á strætókortinu mínu sem mér þykir alveg sérlega vænt um. Það keypti ég mér sjálf á einhverjar rúmar fjörutíu þúsund krónur sem ég vann mér inn í sumarvinnunni í fyrra. 

Hinum megin í strætóskýlinu stóðu þrjár stúlkur á svipuðum aldri og ég og spjölluðu saman. Eða fjórar, ég man það ekki, en ég man að ein þeirra var með ofsa fallegan bleikan Fjällräven bakpoka á bakinu. Þær voru eitthvað að ræða strætókortin, nemakortin sem mennta- og háskólanemar geta keypt á eitthvað sem einu sinni var spottprís. Nei, djók, þau voru einu sinni ókeypis, já. Þær voru að ræða verðið á þessum kortum og minntust þess þegar kortin voru ódýrari og einu sinni voru þau meira að segja bara ókeypis. Ein stúlknanna minnti vinkonur sínar á að kortin voru ekki ókeypis fyrir alla, sveitarfélögin þurftu að greiða á móti þessu verkefni til að íbúar í námi fengju ókeypis kort. Hún nefndi í kjölfarið að Garðabær hefði til að mynda ekki tímt að taka þátt í þessu svo Garðbæingar hefðu ekki fengið fríu kortin. Þá fóru samræðurnar úr strætókortum og yfir í það að krakkar í Garðabæ eiga líka hvort eð er öll bíl sem mamma og pabbi borga þannig að þau taka ekki strætó og þurfa því ekkert svona strætókort. Þarna sat ég, Garðbæingurinn, með mitt kort og ekki með neinn bíl og íhugaði hvort ég ætti eitthvað að nenna að leiðrétta þær. 

Þegar ég byrjaði í menntaskóla vissi ég ekki hvers lags stimpil Garðabærinn hefði á sér. Í alvöru. Það var ekki fyrr en ég kynnti mig fyrir nýjum skólafélögum og sagðist vera úr Garðabænum að mig fór að gruna eitthvað. Hjá sumum mætti ég viðhorfi sem ég vissi ekki að væri til af því enginn hafði látið mig vita að allir í Garðabæ eru dekurdúllur sem fæddust með silfurskeið í munninum, eiga flugfreyjumömmur, læra viðskiptafræði og lögfræði og eru líka bara almennt með leiðindi.

Alhæfingarnar í síðustu setningu rakst ég á í bloggfærslu eftir fullorðinn mann sem hann pikkaði inn á veraldarvefinn í fyrradag. Mamma mín er ekki flugfreyja, mér dytti ekki í hug að læra viðskiptafræði eða lögfræði, silfurskeiðina hef ég ekki fundið ennþá og ég efast um að einhverjum dytti í hug að kalla mig dekurdúllu. Það getur vel verið að ég sé með leiðindi endrum og eins en þá er það svo sannarlega ekki af þeim sökum að ég á heima í Garðabæ. Að fullorðinn maður geti látið út úr sér svona yfirlýsingar sem eiga við á hálfan annan tug þúsunda fólks get ég bara ekki skilið. Mér dytti ekki einu sinni í hug að lýsa því yfir að allir á Egilsstöðum væru alltaf með hor, þó svo að þar búi nú öllu færra fólk en í Garðabæ.

Mér finnst bara alveg drulluglatað þegar fólk er búið að ákveða að tiltekinn aðili sé svona eða hinsegin vegna þess að hann kemur héðan eða þaðan eða er svona eða hinsegin. Ég veit að þessi maður var ekkert að tala um mig í bloggfærslu sinni en hann talar um hóp sem ég fell undir og því hreyfði þetta við mér. Mér finnst líka alveg út í hött að ég forðast það að fara út úr strætó á Arnarneshæðinni vegna þess að ég vil ekki að farþegarnir máli einhverja mynd af mér í kollinum á sér.

Þetta á alls ekkert bara við um dekurdúllurnar í Garðabænum. Það er ekki í lagi ætla sér að halda því fram að allt rauðhært fólk, allir Bretar, allir sem eru í World Class, allir í Breiðholtinu, allir sem æfa skylmingar, allir í MR, allir á Þjóðhátíð í Eyjum eða allir með eyrnalokka séu svona eða hinsegin. Það er bara ekkert hægt. Þó svo ég þekki einn rauðhærðan gaur með athyglisbrest þá eru ekkert allir rauðhærðir með athyglisbrest. Ég þekki líka MR-ing sem fær aldrei lægri einkunn en 8.0 en svo þekki ég líka MR-ing sem fékk einu sinni einkunnina 2.0. Svo erum ég og systir mín báðar með eyrnalokka en erum samt svo ólíkar að það er ekki hægt. 

Ég þekki líka Garðbæinga sem hafa alltaf átt næga peninga og svo þekki ég aðra Garðbæinga sem hafa aldrei átt nóg.

Ég geri þetta sjálf og ég hef lagt mikla áherslu á það undanfarið að gera þetta ekki. Ég reyni að minna mig á það reglulega að ég get ekki með nokkru móti vitað hvort konan sem sat við hliðina á mér í strætó með gat á buxunum sé flugfreyja, lögfræðingur eða afgreiðsludama í Snælandsvídeó. Ég get ekki vitað hvað hún er að díla við í dag eða hvað hún hefur dílað við á leið sinni í gegnum lífið og tilveruna. Ef systir hennar er í eiturlyfjaneyslu, amma hennar með krabbamein eða foreldrar hennar að skilja er ekkert við sameiginlega strætóferð okkar sem getur gefið mér hugmynd um það nema að hún bókstaflega ákveði að segja mér alla sólarsöguna. Ég get ekki talið mig þekkja hennar aðstæður í lífinu á nokkurn einasta hátt með því einu að sjá henni bregða fyrir í dagsins amstri. 

Þegar maður pælir raunverulega í því þá er þetta alveg óhugnanlega algengt. Bæði hjá mér og þér. Við höfum ákveðna hugmynd um ákveðið fólk sem iðulega eru komnar frá einni manneskju eða fjórum sem leggja línurnar að ákveðinni staðalímynd. Þá finnst okkur eðlilegt að allir sem séu eins og þessir aðilar á einhvern hátt hljóti að hafa sömu persónueinkenni og reynslu. 

Ég held að það sé gríðarlega óheilbrigt að vera fordómafullur, að ákveða fyrirfram hvaða persónu fólk hefur að geyma. Ég held að með fordómum missi maður af svo mörgum áhugaverðum einstaklingum, aðstæðum og tækifærum. Ég efast ekki um að ég hafi misst af því að upplifa eitthvað merkilegt vegna þess að fordómar mínir stóðu í vegi fyrir því. Þess vegna vil ég leggja mig alla fram í að verða fordómalaus. Með því mun mér og eflaust einhverjum öðrum líða betur og ég mun alveg klárlega ekki tapa neinu á því, ég mun eflaust bara græða. 


Burtu með fordóma og annan eins ósóma.

hldr

þriðjudagur, 15. apríl 2014

Múslí

Í dag hafði ég lítið fyrir stafni. Ég ákvað að prófa að búa mér til múslí. Ég gúgglaði mig til og skoðaði nokkrar mismunandi uppskriftir af múslíum (?) og sá að flest innihéldu hafra, einhverja blöndu af hnetum og fræjum og eitthvað af þurrkuðum ávöxtum. Ég ákvað að búa til mitt eigið úr því sem væri til heima. Ég ákvað líka að sleppa þurrkuðu ávöxtunum, mér finnst betra að geta valið hverju sinni hvort mig langar í rúsínur, apríkósur eða gojiber.

Ég er íslenskunörd og þurfti að sjálfsögðu að kanna hvernig múslí væri í fleirtölu á íslensku af því ég notaði orðið sem hvorugkynsorð í þágufalli fleirtölu hér að ofan. Samkvæmt BÍN er múslí ekki til í fleirtölu. Ég er ósammála því, það er hiklaust hægt að nota þetta orð í fleirtölu, það eru til svo margar gerðir af múslíum!

    nf.    múslí
    þf.    múslí
    þgf.  múslíum
    ef.    múslía

En ég gerði líka bara eitt múslí, svo þetta skiptir ekki höfuðmáli. Útkoman varð bara prýðileg, kannski svolítið mikið bökuð en fín samt. Innihaldið var nokkurn veginn svona:




haframjöl
-  1 bolli

fínt kókosmjöl
saxaðar möndlur
saxaðar pekanhnetur
sólblómafræ
graskersfræ
saxaðar kókosflögur 
-  1 bolli

hunang
kókosolía
hnetusmjör
agavesíróp
-  tæplega 1/2 bolli

kanill
-  1-2 tsk


Hneturnar, fræin og kókosið (kókosinn?) voru um það bil í svipuðu magni, ég blandaði þessu bara út í bolla svo þetta fyllti upp í. Blautefnin voru svo tæplega hálfur bolli. Þessu blandaði ég síðan öllu saman í skál og hrærði vel í. Ég hitaði ofninn í 175° og dreifði úr blöndunni á plötu með bökunarpappír. Þessu henti ég inn, stillti klukku á 40 mínútur og tíu mínútum síðar hrærði ég aðeins í þessu til að þetta myndi nú bakast jafnt. Fimm mínútum síðar var þetta orðið ansi dökkt á lit, ég opnaði ofninn og þá rauk bara úr honum. Þetta leist mér ekki á svo ég tók plötuna úr ofninum og lækkaði hitann í 150°. Þegar hann hafði kólnað aðeins setti ég draslið aftur inn og þorði síðan ekki annað en að fylgjast með þessu svo ég færi ekki að kveikja í. Ég hélt áfram að hræra reglulega og missti svo þolinmæðina rétt áður en mínúturnar 40 kláruðust. Ég leyfði þessu svo að kólna og kom þessu svo fyrir í fallegri krukku, því allt er jú betra í krukku. 



Ég BÍN-aði líka kókos og komst að því að það má bæði vera í karlkyni og hvorugkyni. Það er líka bara til í eintölu, ég get alveg sætt mig við það. Hvorugkyns kókos og karlkyns kókos beygist eins í eintölu, munurinn kemur bara fram þegar greininum er bætt við, kókosið - kókosinn. 

Ég hef nánast jafn gaman af þessu og múslíinu sjálfu.


En burtséð frá þessum beygingum á ég nú þetta fína múslí! Næst held ég að ég setji minni kanil og passi mig kannski að hræra oftar í blöndunni svo hún bakist ekki svona mikið. Kannski ég hafi bara ofninn á 150° - þá get ég kannski andað rólega á meðan múslíið er í ofninum. En hey, úr því ég gat þetta þá geta þetta allir, prófið!

hldr

mánudagur, 31. mars 2014

Hnetusmjörskókosmöndlusnilld

Það var eitthvert síðdegið snemma á þessu ári. Ég var á leiðinni í setningafræðitíma en var heldur snemma á ferðinni. Það var rigning og bara frekar glatað veður og ég tók stefnuna á kaffistofuna í Árnagarði til að fá mér tíu dropa og safna kröftum fyrir tímann. Ég greip líka eitthvað sem ég hélt að væri svona döðlubananastykki sem Háma framleiðir. Þegar ég beit í stykkið kom í ljós að þetta var eitthvað annað, eitthvað óskiljanlega bragðgott. Þetta var einhver blanda af möndlum, hnetusmjöri, kókosolíu og fleiru sem ég kunni ekki skil á, en samsetningin varð til þess að það létti aldeilis yfir mér. Nei, það þarf ekki annað en eitthvað ætt og bragðgott til að laga daginn minn.

Á mánudaginn síðasta kom ég heim úr skólanum eftir langan skóladag. Það var ömurlegt veður og ég var gegndrepa eftir gönguna heim úr strætó. Í ofanálag var ég svöng og ennþá pínu lasin svo það var sama hvað myndi fá mér að borða, ég kæmi ekki til með að finna bragð af því úf af kvefinu. Flestir sem þekkja mig sæmilega vita að það er gífurlega fátt sem mér þykir leiðinlegra en að finna ekki bragð af mat. Þá á ég ekki við mat sem er bara almennt bragðlaus heldur það að finna ekki bragð af matnum en vita samt að hann bragðast ósköp vel. Mig langaði svo innilega í eitthvað gott að borða þetta mánudagseftirmiðdegi en úr því að mig skorti bragðskynið ákvað ég að útbúa eitthvað girnilegt sem ég gæti svo sparað þangað til bragðskynið væri komið aftur. Þá mundi ég eftir hnetusmjörskókosmöndlustykkinu í Árnagarði og fór að tína til alls konar drasl úr skápnum í eldhúsinu.

Ég setti hitt og þetta í skál, það var enginn tími fyrir mælieiningar, þetta var ekkert nema dass af hinu og þessu. Innihaldið var (ef ég man rétt):
          saxaðar möndlur
          haframjöl
          fínt kókosmjöl
          saxaðar kókosflögur
          saxaðar pekanhnetur
          hörfræ

Síðan setti ég um það bil matskeið af kókosolíu í litla skál og í örbylgjuna til að bráðna. Út í það bætti ég síðan svipuðu magni af hnetusmjöri og aftur fór það í örbylgjuofninn í smástund. Þá var komin þessi fína blanda sem var orðin passlega fljótandi til að hægt væri að blanda henni við hnetumixdraslið vandræðalaust. Svo bætti ég reyndar við svona teskeið af hnetusmjöri eftirá. Mér þótti þetta síðan ekki festast nógu vel saman svo ég greip agave-síróp og sprautaði um það bil teskeið af því út á gumsið. Svipað og með bananasmákökurnar mínar þá snerist þetta greinilega um hið fullkomna jafnvægi þurrefna og blautefna (það hlýtur að mega segja það). Að þessu loknu klessti ég blöndunni á bökunarpappír og fleygði í frysti. Um klukkustund síðar mundi ég að ég átti tvo mola eftir af 70% súkkulaðiplötunni sem ég keypti fyrir löngu. Ég rauk með þá inn í eldhús og bræddi saman við svolitla kókosolíu og dreifði þessu svo yfir frosnu klessuna sem ég skar síðan í bita og setti aftur í frystinn. Svo beið ég spennt í nokkra daga, það var erfitt og leiðinlegt.



Við systur erum strax búnar að plana að gera meira af þessu. Þetta er snilld. Bara snilld. Nú veit ég líka að ég get allt, bara ef ég er nógu svöng og örvæntingarfull eftir góðu bragði. Hið fullkomna jafnvægi sagði ég, það er eina leiðin. Ég hlakka til að prófa mig meira áfram í svona, bragðlaukarnir mínir hlakka jafnvel enn meira til. Æ, ég er svo mikil bolla að það er ekki hægt.

Nóg í bili áður en ég fer að slefa á tölvuna. Bless.

hldr


ps. Ég mæli ekki með því að taka þetta úr frysti, gleyma því og borða hálftíma seinna. 
Þá verður þetta rosa blaut klessa. Samt góð á bragðið.

mánudagur, 24. mars 2014

happy

Ég strengdi áramótaheit. Ég ákvað að fara í neikvæðnibindindi árið 2014.

Vegna þess þótti mér nú aldeilis við hæfi að taka þátt í herferðinni #100happydays. Fyrir þá sem ekki vita þá er það einfaldlega hvatning til að finna sér eitthvað til að gleðjast yfir á degi hverjum og deila mynd af því á samfélagsmiðlunum. Ég ákvað að gera þetta bara á Instagram en hef einstaka sinnum deilt myndunum yfir á Facebook líka. Fyrst um sinn gekk þetta bara temmilega vel, ég vandaði valið á hverjum degi og setti inn mynd daglega. Hér eru nokkur dæmi:

Þetta gull gleður mig á hverjum degi.

Ég hef dritað inn matarmyndum í þessu átaki.
Ég fékk agalega góðan mat á Coocoo's nest,
ég mæli eindregið með að allir drífi sig þangað að smakka!

Setningafræði er aldeilis skemmtileg,
ekki er verra þegar dæmasetningarnar fjalla um
að prumpa glimmeri, skíta peningum og æla blóði.

Jóhann gaf mér knús.

Reiði málfræðingurinn Yuri Knorozov með köttinn sinn.
Mynd sem gleður í dagsins amstri.

Mamman mín átti afmæli um daginn,
ég fletti í gegn um myndaalbúm heimilisins
og fann þessa fínu mynd af okkur saman.
Við erum alveg afskaplega ólíkar á henni en sætar samt.



Undanfarnar vikur hef ég verið í eins konar andlegri lægð. Þessi andlega lægð á sér alveg gildar ástæður en sumar þeirra eru nú kannski ekkert til að skæla yfir. Ég hef meðal annars komist að því að ég er sérfræðingur í að taka að mér of mörg verkefni. Í þokkabót er ég í háskólanámi og hlutastarfi og stundum finnst mér ég bara hafa allt of mikið að gera. Námið hefur kannski íþyngt mér aðeins síðustu vikur. Verkefnin hafa verið krefjandi og ég hef eytt ómældum tíma í Árnagarði, svo miklum að ég held að það fari að koma að því að ég flytji lögheimili mitt þangað. Sökum anna í skólanum hefur frítíminn verið lítill og ég hef ekki getað gert það sem ég hef viljað. Ég hef lítið komist að hreyfa mig og vinkonur mínar sé ég sorglega sjaldan. Ég verð agalega eirðarlaus þegar dagarnir mínir eru einhæfir og lítið um tilbreytingar. Vegna þessa hef ég dottið úr takti í þessu gleðidagaátaki og þetta skýrir líka bloggskort síðustu vikna. Ég hef nokkrum sinnum byrjað á bloggi en ekki fundið löngun til að klára skrifin og deila þeim. Fyrir viku síðan ákvað ég að nú væri nóg komið og ég skyldi hætta þessari vitleysu og rífa mig upp. Það fór ekki betur en svo að á miðvikudaginn fékk ég skyndilega hálsbólgu og varð drulluveik út frá því. Ég funkera illa þegar ég er lasin og verð sérlega frústreruð þegar líkaminn minn virkar ekki eins og ég vil að hann virki.

Stundum er lífið bara ekki alveg eins og maður ætlar sér. Það var nú hluti af þessu áramótaheiti mínu að ég þyrfti að sætta mig við að ég geri mistök og á sama hátt get ég líka ekki ætlast til þess að ég sé á bullandi jákvæðnitrippi allar stundir, alla daga. Það besta sem ég get gert við þessari andlegu lægð minni er að vinna í henni og reyna að snúa henni við. Ég græði ekkert á því að velta mér upp úr tilbreytingarleysi síðustu vikna og ætla því ekki að gera það.

Nú ætla ég að reyna að halda áfram þessari gleðidagamyndasyrpu til að minna mig á það góða í lífinu. Þeir sem vilja fylgjast með verða víst að vera á Instagram þar sem ég er ekki hrifin af því að fylla Facebookið mitt af þessu. Á Instagram má finna mig undir notandanafninu hildurhafsteins. Svo langar mig líka að blogga meira, ég er með ýmsar hugmyndir og þarf kannski að venja mig á að blogga frekar oftar og minna heldur en að henda inn svona löngum romsum einstaka sinnum. Áðan var ég svo sár út í kvefið mitt fyrir að loka á bragðskynið að ég henti í eitthvað gúmmulaði sem ég ætla að smakka þegar ég finn bragð aftur. Ef það bragðast vel þá hendi ég inn "uppskrift" af því hið snarasta. Þetta skal vera góð vika.

EVERY DAY MAY NOT BE GOOD 
BUT THERE IS SOMETHING GOOD IN EVERY DAY.

hldr

mánudagur, 17. febrúar 2014

Takk, tölvudrama og pinnblástur

Ég vil byrja á að þakka kærlega fyrir góð viðbrögð við síðasta bloggi. Ég var í tvo daga að peppa mig upp í að deila þessu á Facebook en eftir smá japl og jamm við Jóhann minn þá lét ég vaða. Mér fannst sérlega ánægjulegt að heyra að þessi litla frásögn mín hafi verið einhverjum hvatning til taka sín mál til skoðunar. Takk líka allir fyrir að nenna að lesa blaðrið mitt. Takk.

En að öðru. Ég þurfti að senda tölvuskinnið mitt í yfirhalningu á fimmtudaginn. Hún er búin að vera með stanslaus leiðindi síðustu tvo-þrjá mánuði og tók svo algjört frekjukast á fimmtudag og heimtaði að fara til læknis strax. Mér finnst eiginlega bara fínt að vera aðeins laus við hana, við þurftum greinilega bara að taka okkur smá pásu og vinna í okkar málum, við höfum ekki beinlínis verið bestu vinkonur upp á síðkastið. Svo á ég líka síma þar sem ég kemst á Facebook, Instagram og meira að segja Pinterest, svo ég er ennþá tengd við alheiminn, engar áhyggjur.

En Pinterest, vá hvað Pinterest er mikil snilld! Ef þú ert ekki með aðgang á Pinterest þá legg ég til að þú stofnir einn slíkan undir eins. Það er svona brainstorm vefur þar sem hægt er að safna saman fallegum myndum, uppskriftum, orðum, hverju sem er. Ég er nú ekkert nýbúin að uppgötva þetta en mér finnst þetta samt bara svo ógeðslega sniðugt. Ég tek svona Pinterest tímabil þar sem ég vil helst eyða öllum mínum stundum þar, en prófílinn minn má finna hér. Það er nú kannski ekki mikið þarna en glöggir sjá að ég hef safnað mest í matarmöppuna, það kemur kannski fáum á óvart.

Telma, vinkona mín, er svo klár og heldur úti þessu fína bloggi. Hún er líka að læra íslensku og mikil Pinterest-kona og hún smellti bara í nýyrðið pinnblástur (sem er líka lausleg þýðing á enska orðinu pinspiration). Pinnblástur er sem sagt samansafn af myndum sem veita manni innblástur og maður hefur fundið á Pinterest. Hér eru því nokkrar slíkar sem ég hef pinnað nýlega ...











Fleiri myndir og nánari upplýsingar um þessar má finna á Pinterest prófílnum mínum.

hldr






laugardagur, 8. febrúar 2014

Þegar ég breytti um lífsstíl

Nú er ég að komast á gott ról eftir hátíðirnar. Síðustu vikur hef ég hreyft mig reglulega og gætt vel að mataræðinu (ókei, ekki síðustu þrjá daga þar sem ég hef verið lasin). Um leið og ég byrjaði á því þá fann ég hvað líkaminn minn var ánægður. Hann átti svolítið erfitt með þetta fyrst en svo fór hann að njóta, það er dásamlegt að finna fyrir því.

Um jólin sleppti ég mér alveg. Ég var ekki nógu ánægð með mig og átti svolítið erfitt með að fara í ræktina af því ég var byrjuð á nýjum stað sem ég þekkti ekki nógu vel. Fyrir vikið var ég rosalega útblásin og þung á mér yfir hátíðirnar, mér leið bara frekar illa á líkama og sál. 

Fyrir tæpum þremur árum var ég svoleiðis alla daga. Ég hirti lítið um það sem ég lét ofan í mig, fæðan var einhæf og í þokkabót var ég ansi matvönd. Ég var búin að taka mér tíma í að vinna í sjálfri mér andlega og var sátt við þá hlið af mér en var ekki nógu ánægð með líkamlegu hliðina. Ég var nýútskrifuð úr menntaskóla og ákvað að taka mér árspásu frá námi og vinna. Þegar sumrinu var að ljúka ákvað ég að nýta þessa árspásu í að koma lagi á líkamann minn, byrja að hreyfa mig og gjörbreyta mataræðinu. Ég var svo heppin að fá bestu vinkonu mína með mér í lið og saman skráðum við okkur á TT3 námskeið hjá Dansrækt JSB. 

TT námskeiðin í JSB eru gerð fyrir konur sem vilja léttast og breyta um lífsstíl. JSB er einungis líkamsrækt fyrir konur, lítill og þægilegur staður með öllum helstu tækjum og tólum. TT3 er fyrir ungar konur á aldrinum 16-25 ára. Ég hafði áður farið á svona námskeið og vissi því að þetta hentaði mér. Í fyrra skiptið sleppti ég alveg af mér beislinu eftir að námskeiðið kláraði, hætti að hreyfa mig og borðaði það sem ég vildi. Við vinkonurnar ákváðum að þetta námskeið yrði ekki bara tímabundið átak heldur upphaf af nýjum lífsstíl sem við myndum halda áfram þó við hættum á námskeiðinu.

Námskeiðið stóð í sex vikur, við skráðum okkur á tvö námskeið og vorum því fram að jólum að breyta okkur og bæta. Á námskeiðinu eru tveir tímar í viku með hópnum þar sem kennari stýrir eróbikkæfingum og fjölbreyttri styrktar- og brennsluþjálfun. Þarna er gætt sérstaklega vel að því að allir geri allar æfingar rétt til að koma í veg fyrir meiðsli og sjá til þess að æfingin reyni á réttu vöðvana. Hóptímarnir eru hugsaðir sem kennsla, þarna koma stúlkur sem þurfa að læra hvernig á að hreyfa sig og þær fá skýrar leiðbeiningar og kennslu í því hvernig það er gert. Til viðbótar við hóptímana er fundur í hverri viku þar sem fer fram fræðsla og leiðbeiningar um mataræðið og það sem maður gerir utan hóptímanna. Þar fær maður að vita hvað sé best að borða hvenær, fær hugmyndir af máltíðum og einnig eru ýmsar kenningar og mýtur um hreyfingu og mataræði raktar og kannað hvort þær eigi við rök að styðjast. Þessu til viðbótar fær maður aðgang að innri vef JSB sem er fullur af fróðleik um heilsu og mataræði og einnig fullur af alls konar uppskriftum af hinu og þessu í hollari búning. Námskeiðið er því tilvalið fyrir konur sem þurfa einfaldlega að læra hvernig sé best að sinna líkamanum af því að rétt eins og allt annað þá er það ekki meðfædd kunnátta og tekur sinn tíma að læra.

ágúst 2011 - desember 2011

Á fjórum mánuðum missti ég 11 kíló. Það var í raun minnsti gróðinn af þessu námskeiði af því ég lærði svo gríðarlega margt sem ég bý að alla ævi. Ég lærði á líkama minn, lærði hvernig honum líður best og varð örugg með mig líkamlega. Ég lærði um næringuna í matnum og hvernig er best að setja hana saman. Ég lærði hvernig ég á að hreyfa mig og hvaða vöðva ég nota við að gera æfingarnar. Ég lærði að hafa gaman af líkamsrækt og var farin að ögra sjálfri mér í æfingunum en því hafði ég aldrei kynnst hjá sjálfri mér. Ég fann  líka hvað mér leið miklu betur ef ég borðaði grænmeti, ávexti, mjólkurvörur og kolvetni yfir daginn í stað þess að borða nær eingöngu kolvetni líkt og ég hafði gert áður. Þegar maður venur sig á að borða fjölbreytt þá verður líkaminn (eða að minnsta kosti minn) háður því. Ég finn það alveg á mér þegar ég hef ekki fengið mér ávöxt yfir daginn, það er eins og það vanti eitthvað í mig. 

Það er liðinn dágóður tími síðan ég hætti á námskeiðunum hjá JSB. Ég hef vissulega hreyfst aðeins til í þyngd en ég hef samt haldið mig á sömu fimm kílóunum. Áður þá bætti ég á mig 10-15 kílóum á álíka löngum tíma. Ég hef haldið í sömu matarvenjur og borða miklu fjölbreyttari fæðu en ég gerði áður. Í kjölfarið hef ég fengið meiri áhuga á mat og hef gaman af því að smakka nýja hluti og get seint kallast matargikkur lengur. Ég hætti í JSB eftir að hafa verið þar í tvö ár og skráði mig í World Class. Það gerði ég af ýmsum ástæðum, mig vantaði ræktarfélaga, vildi prófa eitthvað nýtt og hreyfa mig í öðruvísi umhverfi. Ég mun þó alltaf hugsa hlýtt til JSB og mæli hiiiiklaust með TT námskeiðunum fyrir allar konur og stúlkur sem vilja læra að hreyfa sig og sinna heilsunni. Námskeiðið er skemmtilegt og svoleiðis uppfullt af fróðleik að ég á engin orð yfir það. Ef einhver hefur frekari spurningar um námskeiðið þá má endilega senda mér línu.

Ég er enginn guð í þessum málum, hér er ég einfaldlega að segja frá minni reynslu. Ég er heldur ekkert fullkomin í dag, það kemur alveg fyrir að ég dett í gömlu matarvenjurnar og gleymi að hreyfa mig. Það sem er breytt er að ég finn fyrir löngun og þörf til að borða hollt og fjölbreytt og hreyfa mig. Ég er orðin háð því að hlúa vel að líkama mínum og geri það að staðaldri. Þegar ég byrjaði á þessu datt mér ekki í hug að ég myndi endast svona lengi og að þetta gæti í raun og veru orðið að lífsstíl hjá mér. Ef mér tókst það þá held ég að allir geti það. Ég var þekkt fyrir það á tímabili að borða ekki grænmeti og mér þótti fátt leiðinlegra en að hreyfa mig. 

Nú er þetta orðið heldur langt hjá mér, takk fyrir að lesa.
 x
hldr

fimmtudagur, 30. janúar 2014

Veistu hvort ég má þetta?

Um daginn hafði ég rölt til vinkonu minnar til að fá lánaða skó hjá henni. Þegar ég var um það bil hálfnuð heim og var að ganga í gegn um einbýlishúsahverfi sá ég litla stelpu sem gekk hinum megin við götuna. Hún var með skólatösku á bakinu og var annars hugar á göngunni, stoppaði til að skoða laufblöð og þess háttar. Við röltum samferða hvor sínum megin götunnar litla stund þar til stelpan gekk upp tröppur að húsi sem ég gerði ráð fyrir að væri heimili hennar. Þegar ég var komin spölkorn í burtu og var farin að hugsa um annað heyrði ég kallað á mig. Þegar ég sneri mér við sá ég að stelpan var hlaupin fram hjá húsi sínu og var augljóslega að yrða á mig þar sem enginn annar var í augsýn.

Ég gekk til hennar og spurði hvað amaði að og hún tilkynnti mér smeyk að það væri enginn heima og að hún kynni ekki að vera ein heima. Ég spurði hana til nafns, sagði henni hvað ég héti og sagðist ætla að hjálpa henni. Við röltum að húsinu hennar og hún sagði mér á meðan að hún væri sko að koma allt of seint heim úr skólanum og samt væri enginn heima. Annars hugar sagði hún mér frá því að systur hennar tvær færu stundum til vinkvenna sinna og þess vegna væri líklegast enginn heima. Þar sem enginn kom til dyra ákváðum við að hringja í móður hennar en stúlkan kunni símanúmerið hennar upp á hár. Þegar ég hringdi fékk ég tilkynningu um að ekki væri næg innistæða fyrir símtalinu. Ég var ekki lengi að kippa því í lag með snjallsímatækninni en á meðan ég gerði það var eins og það rynni upp ljós fyrir stúlkunni.

"Veistu hvort ég má þetta?"

Spurningin kom óvænt en það var alveg ljóst að um leið og hún fór að velta þessu fyrir sér varð hún mun hræddari við aðstæðurnar sem hún hafði komið sér í, hún varð hálfklökk og fór að tárast. Ég átti afar erfitt með að svara spurningunni, þarna hafði hún sem sagt áttað sig á því að hún var að ræða við ókunnuga manneskju en hún hafði greinilega verið vöruð við því. Spurningin vafðist fyrir mér af því ég var augljóslega ókunnuga manneskjan þarna og það sem ég segði væri alltaf eitthvað sem hún ætti að vara sig á og setja spurningarmerki við. Ég endaði á að svara henni í flýti að ég vissi það ekki en að ég ætlaði bara að aðstoða hana og að ég væri voða góð og eitthvað þess háttar. 

Ef ég hefði verið önnur manneskja sem væri þannig þenkjandi að ég ætlaði að misnota þessar aðstæður þá hefði ég að öllum líkindum sagt nákvæmlega það sama. Þá hefði ég getað þóst hringja í móður hennar og sagt henni að hún ætti að koma með mér. Mig hryllti við því að hafa svarað henni á þennan hátt og fannst agalegt að geta ekki sannfært hana fyllilega um að ég ætlaði ekki að gera henni neitt illt.

Ég náði mér loks í inneignina og hringdi í móður stúlkunnar. Hún var skammt undan, þakkaði mér fyrir en virtist þó fremur önug en þakklát í símann. Hún sagðist verða komin eftir tvær mínútur og ég sagði dóttur hennar það. Sú varð ögn áhyggjufull á svip þegar ég fór að sýna á mér fararsnið og því bauðst ég til að bíða með henni þar til mamma hennar væri komin. Hún var því fegin og við spjölluðum á meðan við biðum og hún sagði mér meðal annars að hún væri sex ára gömul.

Þegar mamma kom brast stelpugreyið í grát, ég kvaddi og gekk heim á leið. Ég átti erfitt með að gleyma þessu og þetta sat í mér í nokkra daga. Mér fannst svo slæmt að hafa ekki getað fullvissað stúlkuna um að það væri í lagi að biðja mig um aðstoð. Ég vissi innst inni að auðvitað mátti hún þetta ekki. Hún var vissulega fljót að hugsa og fékk aðstoð frá mér en ég gat ekki annað en hugleitt það hvernig þetta hefði getað farið ef þetta hefði ekki verið ég. Þá á ég auðvitað við hvað hefði getað gerst ef einhver sem væri til dæmis haldinn barnagirnd hefði verið úti að ganga á þessum stað, á þessum tíma. 


Það sem ég hefði viljað segja við stúlkuna ef spurningin hefði ekki komið svona flatt upp á mig er eitthvað á þessa leið:

Þú verður að spyrja mömmu þína að því þegar hún kemur. Ég ætla bara að hjálpa þér og það er allt í lagi að vita ekki hvað maður á að gera þegar svona gerist í fyrsta sinn. En þegar mamma kemur skaltu spyrja hana: "Mamma, hvað á ég að gera þegar enginn er heima? Á ég að gera eins og ég gerði núna eða á ég að gera eitthvað öðruvísi?" Þú veist að það á ekki að tala við ókunnuga en við ætlum að leysa þetta saman og það verður allt í lagi. En mundu að tala við mömmu og spyrja hana svo þú vitir hvað þú átt að gera næst. Þegar maður er sex ára þá er svo margt sem maður á eftir að læra betur og þá er besta leiðin að spyrja. Ef maður gerir einhver mistök þá er best að spyrja hvernig á að gera betur og læra af því. Þú er hugrökk og dugleg að leysa vandann alveg sjálf en best væri að vita hvernig þú ættir að leysa svona mál næst.

hldr